Kostir
Kynning
Eins og við er að búast mun gagnsætt samstarf milli starfsmenntunaraðila og atvinnulífsins hafa jákvæð áhrif á gæði starfsmenntunar og færniþróun kennara, vinnuveitenda, starfsmentor og síðast en ekki síst nemenda.
Þegar metið var hvaða áhrif þetta verkefni og VET@work handbókin hefur haft og munu hafa í framtíðinni við að styrkja skuldbindinguna spurðum við okkur eftirfarandi:
1) Hefur okkur tekist að fá æðstu stjórnendur til að taka þátt í og þróa framtíðarsýn um innleiðingu samstarfs skóla og vinnustaða inn í núverandi stefnur og framtíðarsýn?
2) Hvernig styður handbókin okkar og hvetur samstarf milli starfsmennta- og starfsþjálfunaraðila og kennara og vinnuveitenda og starfsmentora?
3) Hefur okkur tekist að sýna fram á hversu mikilvægt það er að starfsnámsskólar og atvinnurekendur innleiði stefnur, verklag og úrræði sem gera kleift og hvetja til samstarfs skóla og vinnustaða?
Þegar kemur að því að koma á og styrkja núverandi samstarf, spurðum við okkur eftirfarandi:
1) Hvernig hjálpar handbókin okkar við að skapa leiðir til að innleiða skilvirk og gagnsæ samskipti milli vinnuveitenda og starfsmenntunaraðila?
2) Hvernig getur handbókin hjálpað til við að tryggja sjálfbært og gott samstarf sem leiðir til gróða fyrir alla?
3) Hvernig á að hjálpa starfsnámsskólum og vinnuveitendum að meta vilja þeirra til að vinna saman og koma á samstarfi sem hæfir reynslu þeirra af slíku samstarfi?
Það næsta sem við lögðum áherslu á var samvinna og við spurðum okkur hvort við
1) náðum að sýna fram á mikilvægi þess að samþætta námsáætlun/námskrá sem hefur verið samin, skipulögð og aðlöguð í samvinnu og sem hentar þörfum allra aðila;
2) gátum sýnt fram á mikilvægi þess að ganga úr skugga um að allir aðilar hafi sameiginlegan skilning á námsmarkmiðum og skilgreiningum/hugtökum sem notuð eru í samstarfinu og
3) höfum aðstoðað starfsnámsskóla og atvinnurekendur við nýsköpun í samstarfi, samskiptum og samstarfi og auka þannig gæði starfsmenntunar?
Lokaáherslan var á að fagna og meta hvernig
1) samstarf skóla og vinnustaða hjálpar nemendum að ná skammtíma-, miðlungs- og langtímamarkmiðum á þann hátt sem gerir umskipti frá starfsmenntun yfir í atvinnulífið auðveldari,
2) það að upplýsa um góð dæmi um starfsvenjur gat gefið af sér sendiherra samstarfs sem munu hjálpa til við að gera VET meira aðlaðandi og
3) samstarf skóla og vinnustaða mun veita nemendum bætta starfsmöguleika og stöðuga faglega þróun.
Verkefnið hefur skilað mörgum jákvæðum tillögum fyrir okkur sem höfum tekið þátt í þessu verkefni og höfum fengið tækifæri til að prófa og innleiða góðar aðferðir sem lýst er í aðferðafræðikaflanum.
Í fyrsta lagi hefur gagnsæ og sjálfbær samvinna gert okkur kleift að búa til og prófa hugmyndir. Sumt hefur gengið betur en annað, en allar hugmyndir og prófanir hafa hjálpað okkur að vaxa og verða betri í samskiptum, samvinnu, samstarfi og að meta kosti samstarfsins. Við höfum lært hvernig á að kynna hugmyndina um samstarf skóla og vinnustaða og hvaða hindrunum við erum líkleg til að mæta. Að vita um hindranir mun hjálpa okkur að sigrast á þeim og gera okkur betur í stakk búin til að takast á við þær.
Við erum miklu öruggari um hvernig eigi að nálgast starfsmenntaskóla og vinnuveitendur. Við vitum hversu mikilvægt það er að vera opinská um það sem við viljum fá fram og tryggja að við skiljum hugtökin og viðfangsefnin sem við erum að fara að takast á við á sama hátt. Við höfum bætt samskiptafærni okkar og lært að við verðum að leggja okkur fram um að tryggja að við skiljum hugtökin sem notuð eru á sama hátt. Það að tryggja að við tölum „sama“ tungumálið mun auka viljann til samstarfs og það mun skila sér í fleiri og bættum tækifærum til samstarfs.
Eitt af mikilvægustu áhrifunum er að VET@work verkefnið hefur hjálpað starfsnámsskólum og kennurum að meta betur þá færni og þekkingu sem er til staðar í fyrirtækjunum. Þeir hafa orðið betri í að meta ávinninginn og vinninginn af samstarfi og miðla þessum ávinningi til annarra sem koma beint og/eða óbeint að málum. Það hefur einnig gefið vinnuveitendum innsýn í starfsmenntun og aukið viðurkenningu á verknámi og þess veruleika sem starfsmenntun er (oft) að glíma við. Aukinn skilningur og þakklæti hefur hjálpað til við að bæta samskipti og byggja upp tengsl sem byggjast á trausti, virðingu og skilningi. Þetta mun aftur hafa jákvæð áhrif á gæði samstarfs og færniþróun.
Við tókum líka eftir því að þegar traust og virðing eykst, þá eykst tilfinningin fyrir valdeflingu! Vinnuveitendur, starfsmentorar, kennarar og stjórnendur starfsnámsskóla verða sterkari og vilja gera meira, það leiðir af sér jákvæð áhrif sem skila sér í betri samskiptum og dýpri samvinnu og samstarfi. Vinnuveitendur fá að fylgjast með fjölmörgum nemendum og fá tækifæri til að velja þá sem henta best inn í fyrirtæki þeirra. Til að vitna í einn af vinnuveitendum sem rætt var við á einum fjölþjóðlegum fundi: „Nemandi er kannski ekki besti nemandinn, hún / hann er kannski ekki sterkasti nemandinn en samstarf mun hjálpa mér að sjá hvaða nemandi hentar mér best, starfsmönnum mínum og fyrirtæki mínu. ” Þetta mun leiða til þess að fleiri nemendur geta fengið starf á meðan þeir eru enn í námi og í mörgum tilfellum er hægt að bjóða nemendum upp á námssamning á meðan þeir stunda nám í skóla.
Fyrir okkur hefur VET@work verkefnið gefið tækifæri til að byggja upp sameiginlega sýn um aukið samstarf. Það hefur gefið okkur sjálfstraust til að skoða nýjar hugmyndir og deila þessum hugmyndum með öðrum (vinnuveitendum, starfsmönnum, starfsmentorum, starfsmenntunaraðilum, kennurum, nemendum og svo frv.). Það hefur gert okkur kleift að velta fyrir okkur hvernig við vinnum, hverju við viljum ná og hvernig við getum náð þessu með samstarfi skóla og vinnustaða. Verkefnið hefur gert okkur kleift að bæta samskipti, samvinnu og samvinnufærni okkar og það hefur sýnt okkur hversu mikilvægt það er að deila og fagna velgengni. Það hefur aukið meðvitund um að jafnvel þótt starfsmenntun og samvinna um starfsnám krefjist peninga mun það koma til baka með vöxtum!
Við erum líka meðvituð um að ekki allar aðferðir henta öllum! Ef okkur hefur tekist að hvetja til og styðja innleiðingu einnar aðferðafræði fyrir samstarf milli eins vinnuveitanda og eins starfsmenntunaraðila höfum við haft áhrif! Áhrif sem munu líklega leiða til frekara samstarfs.
Hvaða áhrifa má búast við ef þú setur upp samstarf eins og lýst er í þessari handbók? Í fyrsta lagi muntu fá meiri og dýpri skilning á því sem atvinnugreinin getur boðið starfsnámsskólunum upp á og öfugt. Þú munt sjá kostina fyrir báða / alla aðila og þú munt geta eflt starfsmenntunina og náð meiri færni allra hlutaðeigandi. Nemendum mun finnast menntun og nám meira krefjandi og gefandi sem mun gera starfsmenntun að aðlaðandi valkosti fyrir nemendur.
Nemendur fá betri tækifæri til að kynna sér til hvers er ætlast af þeim þegar þeir koma út í atvinnulífið, þeir öðlast og þróa færni sem nýtist þeim og atvinnulífinu. Skilningur kennara á vinnumarkaði og atvinnulífi verður uppfærður. Kennslufærni þeirra verður betur aðlöguð þörfum 21. aldarinnar og þeir verða betri kennarar og leiðbeinendur fyrir nemendur sem eru að fara út í atvinnulífið.
Nemendur munu geta lært bæði af kennurum, vinnuveitendum og starfsmönnum. Þeir munu öðlast raunhæfan skilning á atvinnulífinu og til hvers er ætlast af þeim þegar þeir koma út í atvinnulífið sem launþegar/atvinnurekendur.
Bilið milli starfsnámsskólanna og vinnuveitenda mun hverfa og vegna bættrar samvinnu sem byggir á gagnsæjum samskiptum mun starfsmenntun verða sveigjanlegri þar sem vinnuveitandi og starfsnámsskólar starfa hlið við hlið að þörfum nemandans. Námsgögn verða þróuð og útfærð saman og háþróaðri þekkingu verður miðlað til skólans. Sérhæfðara nám sem byggir á þörfum samfélagsins mun verða möguleiki og mun gefa nemendum tækifæri til að læra um nýjustu starfshætti. Það mun hvetja til og gera kleift að innleiða heildar nálgun á starfsmenntun og bæta orðspor skólans og vinnuveitenda. Það mun einnig skila sér í hæfara starfsfólki og ánægðari kennurum, nemendum, starfsmönnum og vinnuveitendum.