Aðferð 1: Vinnumót

Stutt kynning

Að finna þann sem passar.  Hvort sem þú ert nemi, umsjónaraðili með vinnustaðanámi eða vinnuveitandi muntu leggja talsvert í þjálfunartímabilið.  Þess vegna er mikilvægt að nota tíma í upphafi til að ganga úr skugga um að neminn og vinnuveitandi passi vel saman.  Þetta getur falið í sér prufutímabil og gagnaöflun t.d. að fá meðmæli til að sýna.

job dating

Dæmi um vinnumót sem voru prufukeyrð í verkefninu.

Í þessu dæmi er það umsjónaraðili starfsnámsins sem skipuleggur dag þar sem nemar og vinnuveitendur geta hist og rætt hvor við annan.  Hugmyndin er að para saman nema og vinnuveitendur og ná góðum tengslum.  Viðburðurinn er líka gott tækifæri til að bjóða vinnuveitendum sem þekkja ekki til þess að hafa nemendur í þjálfun og sýna þeim kosti þess og þær kröfur sem eru gerðar.  Athugaðu að slíkur viðburður getur bæði átt sér stað í byrjun námsins og á námstíma til að finna þjálfunarstað eða þegar þjálfunartímabili er að ljúka til að finna starf.

Undirbúningur

Starfsnámsskóli
Miðstöð starfsnáms ætti að vinna þetta í samstarfi við vinnuveitendur.  Í okkar tilfelli völdum við vinnuveitendur sem voru að leita að nemum á samning til að tryggja að þeir myndu finna nema sem passa við vinnustaðinn.  Við undirbúning er mikilvægt að taka tillit til þess hvaða tími hentar vinnuveitendum þannig að þeir geti yfirgefið vinnustaðinn og mætt á vinnumótið.  Metið hversu margir vinnuveitendurnir verða og hvar eigi að halda viðburðinn þannig að aðstaðan hæfi fjöldanum.
Það er mikilvægt að það sé nægilegt pláss og hljóðvistin sé þannig að margir geti talað í einu án þess að of mikill hávaði skemmi fyrir.
Útbúið dagskrá til að sýna  vinnuveitendum (hægt að velja þá sem þið hafið verið í mestum tengslum við).
Fáið ábendingar frá vinnuveitendum og lagfærið. Síðan er hægt að senda hana til allra fyrirfram eða kynna dagskrána þegar viðburðurinn er að byrja.  Það er mikilvægt að útskýra helstu leik / hegðunarreglur um leið dagskráin er kynnt.  Kynnið stuttlega nemana sem vinnuveitendurnir munu hitta eða biðjið nema að útbúa kynningar um sjálfa sig.  Það er mikilvægt að vinnuveitendur hafi aðgang að þessum kynningum fyrirfram ef þeir vilja kynna sér nemana.

Gefið hverjum vinnuveitanda aðstöðu.  Undirbúið nema með því að tryggja að þeir hafi allar upplýsingar og þeir geti æft sig í að taka þátt í svona viðtölum.  Við notuðum hlutverkaleiki til þess.

Vinnuveitandi
Bjóðið vinnuveitendum að vera áfram í sambandi við skólann og gefa ráð og ábendingar um hvernig ætti að skipuleggja og halda svona viðburð.  Fáið vinnuveitendur til að útbúa stutta kynningu á vinnustaðnum og senda hana til þeirra sem skipuleggja viðburðinn svo hægt sé að senda kynninguna til nema fyrir viðburðinn.  Fáið vinnuveitendur til að kynna sér þær upplýsingar sem skólinn leggur fram og gera athugasemdir til þeirra sem skipuleggja viðburðinn.

Nemar
Nemar þurfa að undirbúa sig í samræmi við þær upplýsingar og fyrirmæli sem þeir hafa fengið frá kennara.  Þeir þurfa að hugsa um það hvernig er hægt að hafa góð áhrif á viðmælandann frá byrjun og hvernig þeir vilja kynna sjálfa sig.  Nemar ættu að skrifa niður spurningar til að spyrja vinnuveitendur.  Nemar þurfa að hafa með sér eintök af ferilskrá og meðmælabréfum og vera komnir af stað með ferilbók.

Framkvæmd

Starfsnámsskóli
Kynnið viðburðinn í byrjun og hver markmiðin eru.
Eftir því hversu mörg fyrirtæki taka þátt þarf annaðhvort að kynna fyrirtækin eða að þau kynni sig í hverju viðtali.  Tryggið að hver nemi og fyrirtæki hafi  að minnsta kosti 20 mínútur til að kynnast og ræða væntingar um þjálfun og störf.
Eftir 20 mínútur þarf að biðja nema um að færa sig til næsta fyrirtækis á listanum og endurtaka kynningarnar.  Skipuleggjendur ættu að vera á staðnum til að greiða fyrir samskiptum ef þörf er á og svara hugsanlegum spurningum.  Ljúkið viðburðinum með því að fá fram ábendingar og endurgjöf frá þeim sem taka þátt.

Vinnuveitandi
Kynnir fyrirtækið og eftir hverju er verið að leita í lærlingi.  Leyfir nemanum að kynna sig og hefur spurningar við höndina til að fá fram upplýsingar frá nemanum.  Það er mikilvægt að vinnuveitendur komi með opnum huga og velti fyrir sér hvaða nemi passar best við fyrirtækið og starfsemina.

Nemar
Þurfa að kynna sig og útskýra hvað þeir vilja læra í þjálfuninni og leggja fram hvað þeir geta lagt fyrirtækinu til.  Nemar mega ekki vera hræddir við að vera þeir sjálfir.  Þeir þurfa að vera opnir fyrir ýmsum aðstæðum og sýna virðingu.  Það er mikilvægt að líta á þetta sem tækifæri til að ná samningi og jafnvel finna framtíðar vinnustað.  Nemar þurfa að svara öllum spurningum heiðarlega og vera klæddir í samræmi við tilefnið.

Eftir viðburðinn

Starfsnámsskóli
Skoðið endurgjöf frá vinnuveitendum og nemum og lagfærið upplýsingar og skipulag.  Sendið vinnuveitendum orðsendingu til að þakka fyrir þátttökuna og látið samandregnar niðurstöður úr endurgjöfinni fylgja.  Spyrjið strax hvort viðkomandi vilji leggja eitthvað til málanna varðandi slíka viðburði í framtíðinni og bjóðið þeim að taka þátt í undirbúningi.  Verið í sambandi við fyrirtækin til að fylgjast með árangri af vinnumótum, hvort nemar komist í þjálfun og hvernig hún gengur.  Lærið af mistökum og þeirri endurgjöf sem fæst frá vinnuveitendum og nemunum sem tóku þátt.

Vinnuveitandi
Þarf a taka þátt í að svara spurningum um viðburðinn og láta vita hvort þeir vilji taka þátt aftur.  Láta skólann vita hvort vinnumótið var árangursríkt við að ná í nema í þjálfun og hvernig þjálfunin gekk.  Láta vita hvort áhugi er á að fá fleiri nema.
Vera í sambandi við nemana sem þeir vilja fá til sín í þjálfun og tilnefna starfsmentor til að vera tengiliður við nema í þjálfun og vera í sambandi við kennara í skólanum.

Tillögur

Notið samfélagsmiðla fyrir og eftir vinnumótið til að vekja athygli á því og upplýsa vinnuveitendur.

Í þessu dæmi var fylgst með nemum í hársnyrtiiðn en hægt er að yfirfæra reynsluna á nánast hvaða starfsnám sem er.

Markmiðið var að:

  1. nemar fái stuðning við að kynnast fyrirtækjum í starfsgreininni þar sem væri líklegt að nemarnir gætu fengið námssamninga eða pláss í vinnustaðanámi.
  2. nemar öðlist innsýn í vinnustaðina á staðnum þannig að bæði nemar og hugsanlegir vinnuveitendur geti skoðað hvort þeir passi saman þannig að það styðji og örvi nám og þjálfun.
  3. sýna nemum dæmi um þá ábyrgð sem þeir munu bera sem fagmenn í þessum fyrirtækjum.

Nemar heimsóttu mismunandi fyrirtæki (hársnyrtistofur) 10 sinnum í 6 klukkustundir á dag.  Þetta veitti þeim möguleika á að fylgjast með vinnustaðamenningunni og faglegri vinnu á mismunandi stöðum, þjónustu og fagmennsku fagmanna en um leið að fá smærri verkefni sem vinnuveitandi skipulagði og gengu upp í tímarammanum á hverjum stað.  Í vinnustaðanáminu fengu nemarnir hugmynd um það hvernig er að vinna á hársnyrtistofu, svara síma sem fagmenn, bóka tíma fyrir viðskiptavini og kynnast mismunandi hárvörum.  Viðfangsefni eins og líkamsbeiting, öryggi á vinnustað og félagsfærni komu líka til skoðunar á vinnustöðunum sem nemarnir heimsóttu.

Undirbúningur

Starfsnámsskóli
Fyrir önnina/tímabilið hafði skólinn samband við fyrirtækin í greininni á svæðinu til að upplýsa þau um hugmyndirnar bakvið vinnumót í fyrirtækjum og til að spyrja hvort fyrirtækin væru til í samstarf.  Þau myndu hafa nema hjá sér í 6 klukkustundir til að kynna hársnyrtingu frá sjónarhóli fyrirtækisins.  Strax þegar haft var samband við fyrirtækin í fyrsta skiptið var rætt um tímarammann og gengið frá bráðabirgða samkomulagi.  Starfsnámsskólinn hafði samband við fyrirtækin sem höfðu áhuga á að taka nemendur á vinnumót í vinnustaðanámi.

Næsta skref var að halda samráðsfund með starfsmentorum af vinnustöðunum en þeir eru tengiliðir nemans og styðja nemann á meðan hann er á hársnyrtistofunni.  Á þessum fundi ræddu kennarar og starfsmentorar námsmarkmiðin og ákváðu hvernig samskipti ættu að fara fram um nema og verkefnin á stofunum.  Markmiðið var að koma öllum á sömu blaðsíðu og tryggja að nemar myndu fá sem mest út úr heimsóknunum á stofurnar.  Þessi fundur kom kennurunum og starfsmentorunum líka til að skilja hvað hinn aðilinn var að gera og fá ábendingar um hvernig væri best að standa að hlutunum.  Gengið var frá því hvaða verkefni væri við hæfi að leggja fyrir nema á þessu stigi þegar nemarnir dvelja sex klukkustundir á hverri stofu til að reynsla þeirra yrði nytsamleg, fjölbreytt og gæfi innsýn í störfin á stofunum.

Rætt var um og ákveðið hvað væri hægt og æskilegt að læra í þessum heimsóknum.  Ef ákveðið er að nemar fái verkefni á meðan þessum heimsóknum stendur þarf að vera samkomulag um markmiðin og hvernig er hægt að meta frammistöðu og árangur nemanna og hvernig til tekst með heimsóknirnar.

Kennari ætti að vera í sambandi við stofurnar með góðum fyrirvara.  Það þarf að vera hægt að svara þeim spurningum sem nemar, vinnuveitendur og starfsmentorar gætu haft.  Æskilegt er að kennari heimsæki stofurnar til að undirbúa heimsóknir nemanna.  Skrifið niður skýrar leiðbeiningar og upplýsingar um það hvað ætti að láta nema gera á meðan þeir eru á stofunum, samræmið hvernig á að meta frammistöðu nemanna og hvernig á að vera í sambandi á meðan og eftir heimsóknirnar.

Vinnuveitendur
Vinnuveitendur ættu að kynna sér námskránna og láta skólann vita hvað þeir geta boðið nemum í þessum heimsóknum.  Það þarf að tilnefna starfsmentor fyrir nemana og komast að því hvað nemarnir geta og mega gera.  Það þarf að upplýsa alla starfsmenn um heimsóknir nemanna og undirbúa heimsóknirnar.  Það þarf að kynna fyrirtækið fyrir skólanum og fyrir þeim nemum sem koma í heimsókn.

Mikilvægt er að vinnustaðir séu í sambandi við og vinni með skólanum til að vita hvað nemar hafa lært eða munu læra áður en þeir koma í heimsóknina.  Það þarf að vera samráð við kennara um mat á verkefnum og stöðu og framförum hjá nemum.

Nemar
Þurfa að vera tilbúnir til að vera opnir fyrir nýrri og fjölbreyttri reynslu á fjölbreytilegum vinnustöðum.  Nemar þurfa að átta sig á því hvaða verkefni þeir hafa og geta unnið að í heimsóknunum.  Að undirbúa og æfa sig í að kynna sig fyrir vinnuveitendum er meðal annars falið í að þjálfa og æfa samskipti og félagshæfni.  Markmiðið er að læra um fyrirtækin sem nemar heimsækja og læra um mismunandi vörur og aðferðir fagsins.

Framkvæmd

Starfsnámsskóli
Skólinn ætti að vera í reglulegum samskiptum við vinnustaðina og nemana til að tryggja að reynsla beggja verði góð og vita hvort vinnuveitandi vill fá nema á samning.

Vinnuveitandi
Nemar byrja á heimsóknum, alls 10 skipti á mismunandi stöðum, sex klukkustundir í senn.  Þetta fer fram eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi og mikilvægt er að þekkja það.  Nemar fylgjast með fagmönnum sinna viðskiptavinum og fá að taka þátt og aðstoða eins og hægt er.  Það þarf að gera nemum kleift að læra og kynnast nytsamlegum og nauðsynlegum þáttum í þjónustunni, svara í síma, setja niður tíma fyrir viðskiptavini, panta vörur og fylgjast með lager en ekki síst læra á þau atriði sem varða hreinlæti og öryggi.  Nemar ættu að geta þvegið hár,  lita hár, þurrka hár og fleira.

Starfsmentorar þurfa að vera meðvitaðir um líkamsbeitingu, heilsu- og öryggisþætti og vera jákvæð fyrirmynd í faginu.  Það þarf að gera nemum kleift að æfa og bæta samskipti og félagslega þætti og gefa ráð og leiðbeiningar um slíkt á uppbyggilegan hátt.  Þetta hvetur nema til að reyna  og er líklegt til að auka áhuga þeirra á faginu.  Nemar þurfa að kynnast mismunandi hárvörum, fagvitund og hvaða færni og hæfni verður til þess að fólk nær langt í faginu, bæði að ná því að komast á samning og fá og skapa sér vinnu eftir útskrift.

Nemar
Nemar þurfa að nálgast þessi vinnumót með opnum og jákvæðum huga og fá reynslu af mörgum mismunandi vinnustöðum í starfsgreininni.  Þeir þurfa að vera tilbúnir til að leggja sig fram og sýna ákefð og áhuga á meðan heimsóknunum stendur.

Eftir heimsóknirnar

Eftir að heimsóknatímabilinu er lokið þarf að skipuleggj fund þar sem kennarar og vinnuveitendur eða starfsmentorar koma saman.  Það þarf að greina heimsóknirnar, hvað tókst vel og hvað ekki.  Hvað þarf að bæta og hverju þarf að breyta?  Ef vinnuveitandi vill bjóða nema námssamning eftir heimsóknirnar þarf að gera samning í samræmi við þær reglur sem gilda um slíkt í hverju landi og starfsgrein.

Kennarar þurfa að líka að halda fund með nemum til að ræða heimsóknirnar.  Þessi fundur getur verið sér fundur kennara og nema en líka má halda sameiginlegan fund allra, nema, kennara og vinnuveitenda / starfsmentora.

Ráðleggingar

Reynið að bjóða fjölbreytta vinnustaði í starfsgreininni til að nemar fá víðtæka innsýn í vinnuumhverfi greinarinnar.  Sumir vinnustaðir eru sérfræðingar og sérhæfðari en aðrir vinnustaðir eru meira almennir í greininni.

Sú aðferð sem var prófuð fól í sér að nemar gátu skoðað muninn á grænum hársnyrtistofum og venjulegum, og líka hársnyrtistofum sem sinna eingöngu körlum eða eingöngu konum.  Þetta gerir nemum kleift að vita hvað er í boði og átta sig á því hvort þeir vilja sérhæfa sig í einhverju eða ekki.  Þetta gaf sérhæfðu fyrirtækjunum líka tækifæri til að kynnast nemum og skoða hvort einhverjir þeirra pössuðu fyrirtækinu betur eða ekki.  Þetta skapar tækifæri til árangursríkra sambanda milli  vinnustaðar og nema á samningstíma og getur leitt til þess að neminn fái vinnu til framtíðar.  Markmiðið er að efla starfsgreinina og fá hæft fólk til starfa til framtíðar.

Margir nemendur hætta námi á meðan þeir eru í vinnustaðanámi eða þjálfun og í versta falli veldur þetta því að þeir hætta alveg við nám í starfsgreininni.  Oft er ástæðan fyrir brottfallinu úr vinnustaðanáminu að nemarnir hafa ekki getað og ekki fengið stuðning frá kennurum við að velja vinnustað sem hentar þeim.  Einnig eru nemar oft ekki með raunhæfar væntingar eða hugmyndir um starfsgreinina eða vinnustað.  Stundum átta nemar sig ekki á því hvað er fólgið í að vinna á ákveðnum vinnustað í ákveðinni starfsgrein.

Til að koma í veg fyrir þetta og til að forðast að nemar hætti í vinnustaðanámi var starfahringekju komið á í Lelystad í Hollandi.  Starfahringekjan er ætluð til að hjálpa nemum við að tengja betur við fyrirtækin sem þeir munu fá þjálfun hjá síðar í náminu.

Aðalmarkmið starfahringekjunnar er að veita nemum í starfsnámi tækifæri til að læra meira um þann iðnað sem þeir ætla sér að vinna við í framtíðinni.  Einnig að nemar geti tekið viðeigandi ákvarðanir um námssamning og framtíðarstörf.  Í hverri viku er ákveðin starfsgrein í brennidepli.

Undirbúningur

Starfsnámsskóli
Undirbúningur í skólanum felur í sé að skipuleggja og vera með kennslustundir, verkefni og vinnustofur til að kynna starfahringekjuna.  Það þarf að hafa samband við vinnuveitendur tímanlega, gera samkomulag við þá og veita upplýsingar um hugmyndina um starfahringekjuna; hver eru markmiðin, hvaða kosti hefur þetta fyrirkomulag fyrir nema og fyrirtækin sem taka þátt.  Það þarf að undirbúa heimsóknirnar í samráði við vinnuveitendurna.

Vinnuveitandi
Það er mikilvægt að vinnuveitendur séu virkir þátttakendur og að starfsmentorar taki þátt í undirbúningi.  Skólinn hefur samband við vinnuveitendur um það hvort þeir vilji taka þátt.  Í því samtali þarf að benda á kostina fyrir vinnustaðinn við að vera með.  Það er meðal annars að auka líkurnar á að fá nema sem passar vel við fyrirtækið.  Skólinn ákveður tíma og dagsetningu fyrir það hvenær heimsóknin verður eftir því hvað fyrirtækið ræður við.

Innihald þess sem gert verður í heimsóknum á vinnustaðina þarf að ákveða í samráði skóla og vinnustaða.  Miðað við aðstæður gætu sumir staðir aðallega boðið uppá skoðun á vinnustaðnum en aðrir gætu boðið viðfangsefni fyrir nema.Kennarar ákveða stærð hópsins og hvernig á að komast á staðinn.  Kennarar ákveða líka hversu margar heimsóknir eru á dag eða viku.  Skólinn útvegar auka starfsmenn til að vera við gæslu og til leiðbeiningar og að fylgja nemum.  Vinnustaður og skóli skoðar í sameiningu hversu margir geta komið í heimsókn á vinnustaðinn í einu.  Það er líka ábyrgð skólans að óska eftir upplýsingum um vinnustaðinn svo kennarar geti undirbúið nemendur.

Nemar
Lengd heimsóknar þarf að fara eftir aldri nemenda, hversu langt þeir eru komnir í náminu og hve lengi þeir halda athygli.  Kennarar ættu að nota tíma í kennslustundum til að kynna vinnustaðina fyrir nemendum.  Nemendur þurfa að skoða vefsíður fyrirtækjanna og hvað einkennir þau störf sem er að finna í hverju fyrirtæki.  Nemendur þurfa líka að undirbúa spurningar fyrir vinnuveitendur til að fá svör við í heimsókninni.

Framkvæmd

Starfsnámsskóli
Bæði nemendur og kennarar fá betri mynd af því til hvers er ætlast af nemum í greininni í framtíðinni.  Í heimsókn fá kennarar meiri innsýn í staðblæ og andrúmsloft á vinnustaðnum og hvaða aðferðir og tæki eru notuð í faginu.

Vinnuveitandi
Í heimsóknunum dregur vinnuveitandi upp raunhæfa mynd af því hvernig hlutirnir eru innan fyrirtækisins og hvernig vinnudagur lítur út.  Það er mikilvægt að vinnuveitandi veiti nemum raunverulega mynd af vinnuálagi, hve langir vinnudagar eru, hvort unnið er á vöktum eða um helgar og hvaða andlegar kröfur fylgja vinnunni.

Það að heimsækja fyrirtæki áður gefur líka báðum aðilum tækifæri til að átta sig á því hvort neminn gæti passað fyrirtækinu.

Nemar
Þegar heimsóknin fer fram ættu nemar að vera vel undirbúnir áður en þeir leggja af stað og hafa með spurningarnar sem þeir höfðu búið til í kennslustund.  Þá ættu þeir að geta áttað sig á því hvað fyrirtækið gerir, hverskonar vinna fer fram og hvort þeir myndu vilja vera á samningi þar.

Eftir viðburðinn

Starfsnámsskóli
Eftir heimsókn ætti skólinn að hafa samband við vinnustaðinn og komast að því hvort vinnuveitandi hafi ábendingar um að breyta einhverju.

Vinnuveitandi
Nemar og vinnuveitandi hafa betri mynd hvor af öðrum.  Ef nemar eru vel undirbúnir og virðast passa fyrirtækinu mun það bæta samvinnu milli skóla og vinnustaðar.

Nemar
Eftir hverja heimsókn gerir nemi skýrslu um heimsóknina og færir niðurstöðurnar í ferilbók.  Nemar taka ákvörðun um þjálfunarstað eftir heimsóknirnar.

Ráðleggingar

Mikilvægt er að ræða við kennara um það hvort heimsóknirnar séu gagnlegar, hvort þær auki innsæi í fagið og starfsgreinina.  Hvernig er sú reynsla að heimsækja vinnustaði nytsamleg varðandi: innihald í kennslunni, finna vinnustaði til þjálfunar, samvinna við vinnuveitendur, hvernig hægt er að bæta ferlið starfahringekja og svo frv.

Scroll to Top