Ytri hindranir og ráðleggingar um hvernig á að yfirstíga þær
Ytri hindranir eru hindranir sem eru utan þess sem þú getur stjórnað og tengjast starfsnámsskólum og vinnuveitendum og stundum einnig öðrum hagsmunaaðilum eins og hinu opinbera o.fl. VET@work teymið hefur valið eftirfarandi 5 ytri hindranir sem algengustu hindranirnar sem koma í veg fyrir að starfsnámsskólar og vinnuveitendur hefji samstarf sem beinist að því að auka færni sem nemendur þurfa til að ná árangri í atvinnulífinu:
- Hindrun 1: Námsskrá
- Hindrun 2: Tungumál
- Hindrun 3: Tækni
- Hindrun 4: Að finna næg fyrirtæki til að hýsa nemendur
- Hindrun 5: Skrifræði
Fimm helstu hindranir sem koma í veg fyrir samstarf skóla og vinnustaða og tillögur um hvernig megi yfirstíga þær
Þegar við töluðum við kennara, vinnuveitendur og aðra sem taka þátt í að mennta starfsnema höfum við tekið eftir því að 5 helstu hindranirnar sem koma í veg fyrir samstarf voru námskráin, tungumálahindranir, tæknin, að finna nógu mörg fyrirtæki til að hýsa námsmenn og skriffinnska. Jafnvel þó að þetta séu utanaðkomandi hindranir sem eru utan áhrifa vinnuveitenda og skólanna, teljum við að það séu leiðir til að yfirstíga þær saman!
VET@work teymið hefur tekið eftir því að ein stærsta hindrunin fyrir því að koma á samstarfi er skortur á sameiginlegu tungumáli. Tungumálið sem notað er hefur verið útbúið af menntageiranum fyrir fræðsluaðila og það hefur ekki tekið tillit til þess að vinnuveitendur eru ekki vanir því. Þetta veldur misskilningi og gremju. Til að koma á samstarfi er mikilvægt að þú tryggir að allir aðilar hafi sama skilning á orðunum sem notuð eru.
Önnur hindrun er að þau verkefni sem nemendum er ætlað að vinna eru ekki talin skipta máli fyrir vinnuveitendur. Vinnuveitendur benda oft á að nemendur hafi lært ranga hluti þar sem áhersla hefur ekki verið lögð á að nota verkefni sem þjálfa færni sem vinnuveitendur meta hjá starfsfólki sem þeir ráða. Ein ástæða þess er sú að flest verkefni sem nemendur vinna eru aðallega unnin í skólum en ekki í fyrirtækjum þar sem nemendur gætu nýtt sér nýjustu tæki/aðferðir. Þessa hindrun er hægt að leysa með því að sérsníða námskrána að einhverju eða miklu leyti að þörfum vinnumarkaðarins á svæðinu og með því að koma á samstarfi við fyrirtæki sem gera nemendum kleift að læra að nota nýjasta búnaðinn þar. Þetta myndi gagnast öllum þar sem nemendur myndu læra að nota tæki sem þeir eru líklegastir til að nota þegar þeir koma út í atvinnulífið. Kennarar geta þá fylgst með nýjustu tækni og aðferðum og vinnuveitendur munu geta ráðið til sín vinnuafl sem þekkir verkfærin og aðferðirnar sem verið er að nota. Að færa hluta af náminu til fyrirtækjanna mun einnig gera kennurum, vinnuveitendum og starfsmentorum kleift að koma á sambandi sem byggir á trausti og allir aðilar skilja betur veruleika hvers annars.
VET@work teymið vill vekja athygli á því að á vinnustöðum er hraðari fagleg þróun en starfsmenntunin getur fylgt eftir. Ein ástæðan fyrir þessu er sú að það tekur langan tíma að þróa nýja námskrá og oft þegar ný námskrá er tilbúin til innleiðingar er hún þegar úrelt. Við höfum líka áhyggjur af því að það sé stundum erfitt fyrir skólana að fá vinnumarkaðinn að gerð námskrár. Ein ástæðan fyrir þessu er sú að starfsnámsskólarnir vita ekki hvernig þeir eiga að selja vinnuveitendum hugmyndina um samstarf og vinnuveitendum finnst rödd þeirra ekki heyrast ef þeir taka þátt í þróun námsins. Mörg lítil og meðalstór fyrirtæki telja að það sé ekkert vit í að blanda sér í málið þar sem námskráin er byggð upp til að uppfylla þarfir stóru fyrirtækjanna en ekki þær þarfir sem þau smærri hafa. Til að hvetja fyrirtæki, stór sem smá, til að taka þátt leggjum við til að starfsnámsskólar setji tíma og fjármagn í að heimsækja fyrirtæki og útskýra kosti þess að taka þátt í að þróa námskrár. Til að halda áhuga vinnuveitenda á að vera með í þróun og innleiðingu námskráa þurfa kennarar að sjást í fyrirtækjum á staðnum. Einnig þarf að hvetja vinnuveitendur til að koma með hugmyndir um hvernig megi setja staðbundinn snúning á námskrána. Tungumálið í námskránni á að vera notendavænt og skiljanlegt fyrir alla.
Önnur hindrun er sú staðreynd að í námskrám er ekki horft til þess hvenær vinnuveitendur eru best í stakk búnir til að bjóða nemendum tækifæri til námsvistar. Námsefnið er oft mjög stíft og tekur ekki tillit til þess að sum svið eru árstíðabundin. Við mælum með því við gerð námskrár og stundaskrár fyrir vinnustaðanám að það sé unnið í samráði við þau fyrirtæki sem eru líklegust til að hafa nema. Eins og er finnst vinnuveitendum í VET@work teyminu að starfsnámsskólarnir ákveði hvenær nemendur eigi að stunda vinnumiðað nám út frá þörfum skólanna en ekki út frá því hvort vinnuveitendur séu færir um að veita nemendum góða reynslu og námsupplifun. Þetta væri auðvelt að leysa ef það væru reglulega fundir þar sem fjallað væri um tímasetningu vinnumiðaðs náms og hvaða verkefni fyrirtæki geta boðið á hvaða árstíma.
Ein stærsta hindrunin sem þarf að yfirstíga er að átta sig fyrst á því að skólakerfið og atvinnulífið deila ekki alveg sameiginlegu tungumáli. Við þurfum líka að vera meðvituð um að það eru mismunandi tungumál notuð í mismunandi starfsgreinum og stundum jafnvel innan eins fagsviðs. Tungumálið sem notað er í litlum og stórum fyrirtækjum er mismunandi og hvernig á að eiga samskipti fer eftir starfsgrein og stærð fyrirtækisins. Þetta er ruglingslegt fyrir ekki aðeins kennarana og vinnuveitendur heldur einnig fyrir nemendur og skortur á sameiginlegu tungumáli leiðir oft til misskilnings og gremju.
Annað sem oft veldur gremju meðal vinnuveitenda er tungumálið sem notað er í verkefnum sem nemendur vinna þegar þeir eru á vinnustað og sniðmátið sem þeir eiga að fylla út er mjög fræðilegt og skrifræðislegt. Vinnuveitendur og starfsmentorar eiga í erfiðleikum með að skilja verkefni og sniðmát þar sem þeir eru ekki vissir um hvernig eigi að túlka orðin sem verið er að nota. Til að forðast þetta er mælt með því að viðkomandi kennarar hafi tíma til að setjast niður með starfsmentorum og nemendum til að ræða verkefnin/sniðmátið og ganga úr skugga um að allir aðilar hafi skilið innihaldið á sama veg og viti til hvers er ætlast. Önnur leið til að leysa þessa hindrun er að bjóða vinnuveitendum að taka þátt í gerð verkefna og ef hægt er að skrifa sniðmát sem nota á.
Við viljum benda á að tungumál er svo miklu meira en bara orð. Í skilgreiningu okkar á tungumáli höfum við sett klæðaburð. Klæðaburðurinn og merki sem þú sendir með því hvernig þú ert klæddur er mismunandi eftir fyrirtækjum og landi til lands. Þess vegna erum við þeirrar skoðunar að það sé alltaf mikilvægt að einbeita sér ekki bara að því að finna sameiginlegt tungumál heldur einnig að öðlast skilning á gildandi klæðaburði og fræða nemendur um hvað sé réttur klæðaburður í mismunandi tegundum fyrirtækja/starfssviða. Til að forðast vandamál sem felast í því að vera rangt klæddur þarf að ræða og vera sammála um bæði hegðunarstaðla og klæðaburð.
Ein leið til að öðlast sameiginlegt tungumál er að eyða tíma saman, vinna saman og kynnast þannig tungumálinu sem notað er í skólanum og í fyrirtækjum. Ræddu saman um hvers konar tungumál þú vilt nota í verkefnum og hlustaðu á rök og sjónarmið annarra. Berðu virðingu fyrir mismunandi sjónarmiðum og lærðu af þeim!
Tæknin er önnur ytri hindrun sem starfsmenn og atvinnurekendur þurfa að bregðast við þegar unnið er að samstarfi um starfsmenntun. Mjög líklegt er að skólinn og fyrirtækin notist við ólíkan búnað og að sá búnaður sem fyrirtækin nota séu oft nútímalegri og nýtískulegri. Kennarar geta þurft að efla þekkingu sína þegar kemur að nýjustu straumum í tækni og til að gera það gæti ein lausn verið að taka vinnuveitendur og starfsmenn þeirra inn í það ferli að efla færni og vitund kennara um tækni. Tilmæli okkar eru að bjóða vinnuveitendum eða starfsmönnum í skólann og fá þá til að ræða og komast að samkomulagi um hvernig best sé að haga endurmenntuninni. Það gæti jafnvel verið hagkvæmt að skipuleggja sameiginlega viðburði þar sem birgjum er boðið í skóla eða fyrirtæki og kennarar og vinnuveitendur fræðast saman um nýjustu strauma og búnað á sínu sviði.
Ein stærsta hindrunin þegar kemur að tækni eru peningar, starfsnámsskólar hafa ekki fjármagn til að uppfæra búnað sinn stöðugt og fylgjast með nýjustu þróuninni. Eins og fyrr segir er námskrá líka eftirá þegar kemur að því að innleiða nýjustu strauma og búnað í menntun. Hraði breytinganna er of mikill, þær eru of dýrar og önnur hindrun sem starfsnámsskólar standa frammi fyrir er plássleysi, hvar á að setja nýjasta búnaðinn.
Tillögur okkar um hvernig eigi að leysa þetta vandamál er að halda reglulega fundi með vinnuveitendum á staðnum og koma sér saman um hvaða búnað eigi að þekkja og nota. Á þessum fundi ætti einnig að gera samkomulag um hvar og hvenær þetta nám ætti að fara fram. Ætti það að vera á ábyrgð fyrirtækjanna sem taka nema á samninga og í vinnustaðanám að kenna nemum að nota tækin eða eiga þau að leyfa kennurum að koma með nemendum til að æfa sig á tækinu áður en nemendur hefja starfsnám? Þetta eru spurningar sem ætti að ræða um við uppsetningu námskráa. Önnur lausn er að reyna að koma á samstarfi/samningum við fyrirtæki sem útvega nýjasta búnaðinn til að gefa búnað til skólans svo nemendur og kennarar geti notað búnaðinn og fylgst með nýjustu straumum.
Við höfum tekið eftir því að vandamál eru við að finna fyrirtæki til að taka nema eða fyrirtæki sem eru tilbúin að miðla kunnáttu og þekkingu með kennurum og nemendum. Ástæður þess eru margþættar og verður ekki farið nánar út í þær. Ein ástæðan gæti þó verið sú að ótti sé við samkeppni eða að vinnuveitandi þurfi ekki að ráða meira starfsfólk á næstunni. Til að hvetja fyrirtæki til að veita nemendum námsmöguleika er mikilvægt að starfsnámsskólar og kennarar þeirra ræði um kosti þess að hleypa nemendum inn í fyrirtæki í starfsþjálfun. Það er líka mikilvægt að benda á að sumir af þeim nemendum sem koma í nám eru ekki þeir sterkustu og sumir kannski ekki einu sinni á réttu sviði en þeir eiga samt skilið réttinn til að prófa.
Annar þáttur sem gerir það að verkum að atvinnurekendur vilja ekki taka við nemendum er tíminn þegar þeir eiga að taka við nemendum. Þess vegna er mikilvægt að taka tillit til óska vinnuveitenda við skipulagningu þjálfunartímabila. Að hlusta á þarfir vinnuveitenda og vera sveigjanlegur gæti opnað dyrnar fyrir suma vinnuveitendur sem hafa verið tregir áður.
VET@work teymið vill leggja áherslu á að það er jafn mikilvægt að finna réttan starfsmentor fyrir nema og að finna réttan nema fyrir fyrirtækið. Ef vinnuveitandi neyðir einn af starfsmönnum sínum til að leiðbeina nemanda mun þjálfunin ekki verða jákvæð reynsla fyrir neinn. Leiðbeinendurnir þurfa að fá stuðning frá stjórnendum sínum og frá starfsnámsskólanum. Leiðbeinendur þurfa að finna að þeir hafi einhvern til að leita til þegar þeir þurfa aðstoð og/eða ráðgjöf. VET@work teymið vill einnig leggja áherslu á mikilvægi þess að velja réttu kennarana til að vera tengiliðir. Ef kennari finnur fyrir óþægindum í starfi sínu sem tengiliður eða ef verkefninu er þvingað upp á hann hefur það áhrif á samskipti við vinnuveitanda og starfsmentor og í verstu tilfellum getur það leitt til þess að atvinnurekendur neiti að taka nemendur í framtíðinni. Þess vegna mælum við með því að sérstök athygli verði lögð í að velja og þjálfa starfsmentora og kennara sem tengiliði. Að finna réttu aðilana verður upphafið að traustu samstarfi til framtíðar.
Síðast en ekki síst hefur skriffinnska reynst vera mikil hindrun þegar kemur að samstarfi. Vinnuveitendur eru hræddir um að samstarfi fylgi pappírsvinna. Það eru óvissuþættir með tryggingar og hver ber ábyrgð á hverju. Sum fyrirtæki gætu hikað við að vinna með starfsnámsskóla vegna þess að þeir hafa áhyggjur af aldri og þroska nemenda. Að taka við nemanda sem er undir lögaldri gæti leitt til auka pappírsvinnu sem vinnuveitandinn er ekki tilbúinn að taka á sig. Minni fyrirtæki finnst þau ekki hafa fjármagn til að sinna öllum pappírum sem samstarf um starfsþjálfun felur í sér og þau eru oft hrædd við allar skýrslur, sniðmát og samninga sem þau þurfa að fylla út. Allar takmarkanir, reglur og reglugerðir draga kjarkinn úr þeim og kjósa að opna ekki fyrirtæki sín fyrir samstarfi við starfsnámsskóla.
Að leysa þessa hindrun er ekki auðvelt þar sem skrifræði er eitthvað sem ekki er hægt að forðast. Hins vegar, sem starfsnámsskóli, getur þú reynt að gera pappírsvinnuna eins einfalda og mögulegt er og einnig þegar mögulegt er gert það eins notendavænt og fljótunnið og mögulegt er. Að innleiða stafræn sniðmát, verkefni og ferla og nýta stafrænar undirskriftir gæti verið ein leið í rétta átt.
Einnig er mikilvægt að taka tíma fyrir skriffinnskuna fyrir kennarana. Kennarar ættu að fá þau úrræði sem þeir og starfsmentorar/vinnuveitendur þurfa til að geta farið saman í gegnum ferla, pappírsvinnu o.fl. til að tryggja að allir verði öruggir í verkefnum sínum. Það væri líka tilvalið ef starfsnámsskólar, kennarar, vinnuveitendur og starfsmentorar myndu greina ferla og sniðmát saman og fjarlægja þá hluta sem þeir telja báðir óþarfa. Ekki vera hrædd við að innleiða nýjar og notendavænni aðferðir við skýrslugerð og mat. Reynið að koma með lausnir sem gera skriffinnskuna minna tímafreka.